Tuesday, March 07, 2006

Heppni

Sú fullyrðing mín að ég sé heppnasta manneskja í heimi var dregin í efa í dag, og af þeim ástæðum hef ég ákveðið að fara í gegnum einn dag í lífi mínu og benda á hversu heppin ég er.
*hehemm*
Í morgun vaknaði ég - og það eitt að ég skildi ekki hafa kafnað um nóttina, eða fengið svefnsýki og sofið áfram er fagnaðarefni, fyrir mig að minnsta kosti - fimm mínútum áður er vekjaraklukkan í tölvunni minni fór í gang. Þetta þýðir að ég fékk að eyða 5 dásamlegum, hlýjum og mjúkum mínútum í rúminu mínu áður en bítlarnir vöktu mig með hinu síglida lagi Yellow Submarine.
We all live in a yellow submarine, yellow submarine, yellow submarine....
Hvernig er hægt annað en að vera hamingjusamur þegar dagurinn byrjar svona yndislega?
Lukkan sýndi sig um leið og ég stökk framúr, því ég steig ekki á neitt brothætt eða nokkuð sem hefði getað skaðað mig varanlega, heldur var það ein vesæl og villt teiknibóla sem sökkti sér í hælinn á mér.
Ég er svo fegin að þetta var ekki nagli.
Eftir að hafa klætt mig við ljúfa tóna sem tölvan mín sá mér fyrir rauk ég út í strætó - og aftur sýndi heppnin sig, því að þrátt fyrir ansi mikla rigningu var ekki þrumuveður, og var ég því örugg fyrir eldingum, sem hefðu vafalaust gert mig óvinnu- og skólafæra þann daginn. Ennfremur datt ég ekki og rotaðist við árangurslaus hlaup mín á eftir strætisvagninum, og ég missti ekki töskuna mína fyrir bíl sem hefði kramið fartölvuna mína, og tel ég það merki um að dagurinn muni halda áfram að ganga mér í hag.
Að vísu gæti það að ég gleymdi lyklunum, og þurfti þessvegna að standa úti í rigningunni í 30 mínútur meðan ég beið eftir næsta vagni talist sem óheppni, en það má telja til eigin afglapa, auk þess sem að ég mundi loksins efir ipodinum mínum(Hér eftir þekktur sem Kisi) sem ég hef lengi ætlað með í viðgerð.
Næsti strætó kom svo, nokkuð á eftir áætlun, og það er til marks um hvað þetta var í rauninni góður dagur að hann keyrði hvorki yfir mig né framhjá mér, heldur stoppaði og hleypti mér inn gegn því einu að ég sýndi strætókortið mitt! Lítil áreynsla fyrir langan akstur. Ég tók svo tal við bílstjórann, og komst að því að nú er búið að breyta strætóleiðinni, og það mér í hag. Eða, það væri mér í hag ef ég væri ekki flutt. Þetta styttir gönguna í næsta strætóskýli um heilan kílómetra! Eða hefði gert það, væri ég ekki flutt.
En ef ég vil einhverntímann skoða gamla húsið mitt þarf ég styttra að labba!
Þar að auki á að fara byggja strætóskýli á núverandi stoppistöðinni minni, þannig að næst þegar ég læsist úti get ég verið þurr. Ég er strax farin að hlakka til.
Það eina sem telja má til sem óheppni við þessa strætóferð er að sökum þess að strætóbílstjórinn ruglaðist aðeins á nýju leiðinni og þeirri gömlu, og missti ég af s1, strætónum sem ég tek úr Garðabæ og upp í skóla.
Á hinn bóginn var það sennilega mér að kenna að greyið maðurinn ruglaðist, þar sem ég var að trufla vagnstjóra í akstri. (Núna er skiltagerðamaður einhverstaðar að syngja "Tooooold you so! But did you listen? No! Bow to my awesome skiltmaking powers!"
Á hinn hinn bóginn var það að hluta til heppni fyrir mig, því að ég gat nýtt tímann sem ég beið til þess að þurrka jakkann minn undir handþurrkunni í Aktu Taktu, sem gaf mér ekki banvænt raflost eða kveikti í jakkanum mínum, og þar að auki leyfði indæla afgreiðsludaman mér að sitja þar inni og setja félagsfræðiverkefnið upp í fartölvunni, sem tók enga stund því að Björg, Gyða og ég vorum svo duglegar að skrifa spurningarnar fyrir á þriðjudaginn. Ég er svo stolt af okkur.
Að vísu gleymdi ég blaðinu með verkefninu heima (sennilega hjá lyklunum o.O) og varð þessvegna að skrifa það eftir minni, en aftur á móti minnkaði það áhættuna á pappírsskurðum um 100%.
Ég kom loks í íslenskutímann minn eftir áfallalausa strætóferð, heilum 36 mín. of seint, og var eiginlega búin að missa af Sjálfstætt fólk prófinu, en Halla var svo yndisleg að leyfa mér að taka prófið inn á bókasafni, og þó að þetta hafi nú ekki verið auðveldasta próf sem ég hef tekið þá var þetta krossapróf, þannig að líkurnar benda til þess að ég fái að minnsta kosti 2.5, sem er allt sem hann Bjartur á skilið að nokkur fái fyrir að lesa um sig, þessi leiðindaskarfur og barnaníðingur sem hann er.
Eftir íslenskutímann gerði ég tilraun til að gefa blóð en ég mátti það ekki því að ég hef látið gata á mér naflann fyrir svo stuttu síðan. Konan útskýrði þetta sem smithættu. Nú sé ég fyrir mér fólk sem fær blóð úr mér alltíeinu fá svona holu í naflann. Þetta gæti svosem talist sem óheppni, en sannleikurinn er sá að ég hálffegin yfir því að hafa ekki þurft að fara - Björg sagði að sprautan væri óhugnalega stór.
Sálfræðitíminn hjá Hafdísi var alls ekki slæmur, smá 7 ára bekkjar fílíngur þar sem að hún las upp úr bókinni, og svo nemendurnir líka. Enginn púaði mig niður þegar ég las, og ég þurfti heldur ekki að lesa texta með neitt sérlega flóknum orðum, svo að mismæli voru fá.
Það var búið að stytta upp þegar tímanum lauk, svo að ferðin úr sálfræðitímanum upp í uppsali var yndisleg, smá vindur og örlítið kalt - svona veður sem mann langar til að hlaupa í. Í tilefni að því hljóp ég niður í N1, þar sem Björg og Una voru, nýblóðsognar báðar tvær, og Björg þar að auki
pirruð. Þetta hefði verið ógn og skelfing, en Björg var næstum ekkert pirruð út í mig, og þar að auki er hún fyndin þegar hún er pirruð. Þar að auki er það heppni að hún var ekki morðóð, því að ég er viss um að hefði hún verið það hefði ég orðið fórnarlambið.
Ég, hún og Anna náðum svo að ljúka við góðan hluta af verkefninu áður en við Anna héldum upp í Apple umboðið (og lentum ekki í neinskonar slysi á leiðinni) þar sem að við náðum að sannfæra starfsmann verkstæðisins um að við værum geðveikar, og hann náði að sannfæra mig um að það væri í fínu lagi með Kisa.
Stórundarlegt, þar sem að þessi sami maður sagði að Kisi væri með bilun í harða drifinu þegar ég fór þangað með hann fyrir tvem vikum.
Honum hefur sennilega batnað. Ég losnaði við að bíða dögum saman eftir viðgerð á Kisa.
Eftir þetta fór ég og skúraði, við undirleik tölvunnar, og að lokum lá leið mín heim á við, þar sem ég fann spaghetti inní skáp, reiðubúið til eldunar.
mmmmmmm spaghetti....ég er óendanlega heppin,