Monday, April 24, 2006

elskið mig

Þar sem að fólk er enn og aftur farið að grátbiðja um uppfærslur (kommentiði þá!) hef ég ákveðið að skrifa stuttar skilgreiningar á hverju fagi fyrir sig fyrir þá sem eru ekki vissir um hvað fög þeir eiga að velja. Þetta geri ég ykkur öllum til ánægju og yndisauka.

Af því að ég er æði.

ÍSLENSKA:

Íslenskutímar ganga út á það að skrifa ritgerðir og eða taka próf úr löngum bókum sem þú hefur lesið litla búta úr í frímínútunum fyrir tímann. Góð leið til að standa sig vel í íslensku er að skrifa fallega og snyrtilega, og passa að vera alltaf sammála kennaranum.

Ef að þú ert í sömu aðstöðu og ég og skrifar örlítið verr en flóðhestur myndi gera og hlustar aldrei nógu vel á kennarann til að vita nákvæmlega hverju þú ert sammála er gott að fara eftir þriðju íslenskureglunni, sem er: Aldrei skrifa neitt sem nokkur heilvita manneskja gæti verið sammála. Við skulum taka bókina Sjálfstætt fólk sem dæmi: í öllum þeim kennslustundum sem að þú hefur mætt í hefur verið talað um Bjart í Sumarhúsum sem geðvondan afdalabónda og í bókinni er minnst á það að hann sé bóndi gróflega ellefu þúsund sinnum. Þegar kemur að prófi segir *Þú* að Bjartur sé táknmynd Halldórs fyrir a) föður sinn eða b) íslenska alþýðu eða hugsanlega c) Írska/Íslenska/Franska lýðveldið. Kennaranum þínum, sem er orðinn hundleiður á því að fara yfir próf og fannst Sjálfstætt fólk aldrei það góð bók til að byrja með mun finnnast þú vera gífurlega frumleg(ur) og gefa þér 10. Veldu íslensku ef þú getur reglulega hugsað upp geðveikislegar útskýringar á einföldum (en oft á tíðum leiðinlegum) sögum.

ENSKA:

Allt sem þú þurftir að kunna í ensku var þér kennt í sjöunda og áttunda bekk. Grafðu upp gömlu glósurnar þínar og þú ert á grænni grein, því að enskukennarar hafa fyrir löngu gefist upp á því að kenna nemendum eitthvað nýtt.

Ef þú vilt ganga í augun á enskukennaranum þínum skaltu læra þrjú ný orð, (helst fjögur atkvæði eða meira) árlega (lesist: Daginn fyrir vorpróf) og notaðu þau í prófinu. Stöðugt.

FRANSKA:

Frönskukennarar eru almennt hrifnir af ljósritum. Talið er að 70% af öllum ljósritum til eru hafi verið gerð af frönskukennurum, og ein algengasta orsök dauða meðal frönskunema er köfnun í ljósritum. Góð leið til að fá háa einkunn í frönsku er að grafa í ljósritastaflanum (munið að leðurhanskar veita góða vörn gegn pappírsskurðum) þar til þið finnið blað sem er vel merkt sem ORÐALISTI. Þetta er vandlega ljósritað, oft í tví-eða þríriti, á hlið. Lærðu þetta blað utanað, það er ekki erfiðinsins virði að læra restina. Lærið einnig eftirfarandi orð: Comment? Pourquoi? Qui? Que? Q’uest-ce-que?

Því að virkilega illgjarnir kennarar prófspurningarnar á frönsku.

JARÐFRÆÐI:

Burtséð frá því hvaða braut þú velur er afar líklegt að þú verðir látin/nn fara í jarðfræði. (Ef þú ert á náttúrufræðibraut varstu að biðja um það, brautvillingurinn þinn)

Jarðfræði er á námsskránni eingöngu til að valda nemendum erfiðleikum. Góðu fréttirnar eru þær að þú kemst líklega upp með fall í jarðfræði, sértu ekki á náttúrufræðibraut.

En þá áttu líka allt illt skilið.

ÞÝSKA: Þýskunemar halda því gjarnan fram að þýska sé allra mála þýðast og fríðast, og að málfræðin taki öllu fram í einfaldleika og öðrum jákvæðum hlutum.

Þetta er helber lygi. Þýska hljómar eins og feiminn manneskja sem hefur gleypt geðillan hrafn að reyna að hósta honum upp, hrafninum til mikils ama. Þýskulærdómur er þar að auki tilgangslaus með öllu, þar sem flestir íbúar Þýskalands tala betri ensku en meðalBretinn, og eru fúsir til að segja þér til vegar og spyrja hvernig þér finnist í fríinu á ástkærri, ylhýrri enskunni.

FÉLAGSFRÆÐI:

Tilgangur félagsfræðikennslu í framhaldsskólum er enn sem komið er óljós, en líklegt má telja að einhver hafi bara viljað hífa meðaleinkun málabrautarnema aðeins ofar, eftir hina gífurlegu dýfu sem þær(einkunnirnar) tóku þegar jarðfræði var kynnt til sögunnar.

Félagsfræði getur verið áhugaverð ef það er farið rétt að henni, en viljir þú losna við allann þann áhuga sem þú gætir hugsanlega haft á félagsfræði skaltu lesa u.þ.b. 3 kafla í bókinni og glósa þá.

LÍFFRÆÐI:

Virðist tengjast frumum, vöðvum og þráðormum á einhvern hátt.

Bíðið spennt eftir: Sögu, Dönsku, Íþróttum, Sálfræði, Tölfræði, Eðlis-og Efnafræði og Stærðfræði!